Kópavogsbrún 2 - 4

Átta íbúða fjölbýlishús, vel staðsett og vandað að allri gerð. Kópavogsbrún 2-4 er ein lóð með tveimur húsnúmerum. Jarðhæðin er sameiginleg en þar er bílageymsla, viðbótar íbúðarrými og geymslur.

Húsið er einangrað að utan og klætt fyrsta flokks postulínsflísum með lágmarks rakadrægni og hámarks frostþoli. Bílageymslan er einangruð að innan og filtuð með gráum múr að utan eða máluð í sama gráa lit og gluggarnir.

Ál/trégluggar eru steyptir í veggina sem gefur hámarks þéttleika. Tré að innan gefur hlýleika og ál að utan létt viðhald. Útihurðir og svalahurðir verða úr tré og í sama gráa lit og gluggar að utan en hvítar að innan. Opnanleg fög eru úr áli. Þeim má loka tryggilega en samt skilja eftir rifu svo hreint loft komist inn.

Þakið er vandaðra en gengur og gerist. Það er lágreist valmaþak (hallar í allar áttir), uppstólað, vel loftræst og nær 40 cm út fyrir húsið. Þýskar PREFA ál þakrennur af vönduðustu gerð verða allan hringinn. Rennurnar verða 125 mm breiðar eða 5“ í stað 4“ sem er algengast. Niðurföllin verða 80 mm breið eða 10 mm breiðari en vanalega.

Þakkanturinn er álklæddur að framan verðu og klæddur undir með máluðum tréborðum.

Snjóbræðslukerfi er í bílastæðum, gangstétt, útitröppum og skábrautinni að og frá bílageymslunni á jarðhæðinni.

Í húsinu eru tvær Schindler 3300® lyftur á milli jarðhæðar (íbúðarrými, geymslur og bílageymsla) og íbúðarhæða. Aðgengi á jafnsléttu er því um allt húsið.

Svalir hússins eru mjög stórar og langtum stærri en fólk á að venjast.
Ein íbúð hefur stóran sérgarð. Önnur íbúð hefur extra stórar svalir sem virðast vera sérgarður en skráist sem svalir samkvæmt byggingarreglugerð.

Í bílageymslunni eru 12 bílastæði. Tvö stæði fylgja fjórum íbúðum og eitt stæði hinum fjórum. Bílastæðin eru risastór eins og sjá má á teikningum.

Sjö misstór íbúðarrými eru á jarðhæð.
Í fjórum þeirra er geymslan inni í rýminu en í hinum þremur fylgir sér geymsla. Íbúðarrýmin eru öll með gluggum og öll nema eitt með hurð út í garð. Lagnir fyrir salerni og handlaug eru í rýmunum.
Íbúðarrýmin eru hluti af íbúðunum og geta ekki orðið seljanleg séreign en þau geta gengið kaupum og sölum innan hússins og þá orðið hluti af annarri íbúð í húsinu.

Salarhæð íbúðanna er 2,9 m. Þykkt gólfs og loftplatna er óvenju mikil eða 26 cm. Hljóðeinangrun milli hæða er því mikil. Lofthæð íbúðar er samt yfir 2,6 m.

Gólfhiti er í aðalbaðherbergi en hefðbundnir ofnar undir gluggum að öðru leyti sem veldur meiri hreyfingu loftsins innan íbúðarinnar sem eykur loftgæði.

Húsbyggjandi: Brautargil ehf
Arkitekt: Jón Guðmundsson
Verkfræðihönnun: Fjölsviður ehf
Rafhönnun: Karl Matthías Helgason
Aðalverktaki: Matthías ehf
Raf- og vatnslagnir: Verkþing ehf
Múrverk: G.S. múrverk ehf
Málun: A.P. Málun ehf
Lóð: Guðlaugur Valgeirsson