Lundur 5

Í byrjun maí 2005 var hafist handa við að rífa þau rúmlega 20 hús sem áður tilheyrðu bóndabýlinu Lundi. Þetta voru fjós, hlaða, íbúðarhús, fjölmargir kofar og geymslur sem mynduðu lítinn kjarna í Fossvoginum sem máttu muna sinn fífil fegurri. Hverfið verður áfram kallað Lundur enda nafnið fallegt og virðulegt. Hér er vafalítið um eina af glæsilegustu staðsetningu íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Í Lundi verða um 400 íbúðir í fjölbýlis-, par- og raðhúsum sem munu styrkja og bæta þennan fallega vog. Fossvogurinn með sinni einstöku fegurð, Öskjuhlíðin og rómaðar gönguleiðir tengja Lundinn saman á þann hátt að gott jafnvægi er á milli byggðar og náttúru. Hverfið er byggt upp með sex kjörnum og stórum grænum svæðum sem flæða á milli þeirra. Stutt er í margvíslega þjónustu og afþreyingu. Smáralindin, Kringlan svo ekki sé minnst á menningarlífið í Gjánni, s.s. Salinn og Gerðarsafn er steinsnar frá Lundi.

Fjölbýlishúsið við Lund 5 er 11 hæða íbúðahús með 38 íbúðum með stórri bílageymslu. Birt flatarmál er 5.442 fm og brúttó rúmmál 22.143 fm. Við hönnun íbúðanna er haft að leiðarljósi að hafa þær bjartar og rúmgóðar með stórum gluggum sem ná niður í gólf og hita í gólfum. Íbúðir á 10. hæð hafa hærri lofthæð. Öllum íbúðunum mun fylgja stæði í lokaðri bílageymslu. Íbúðirnar eru vandaðar og í þeim eru íslenskar innréttingar. Húsin eru álklædd og eru því viðhaldslítil.